Um blaðið

Starfsmenn


Bryndís Sigurðardóttir
Ritstjóri bb.is og Bæjarins besta
Símar 456 4560,
896 9838
bryndis@bb.is


X
 
Blaðamaður
Símar 456 4560


Smári Karlsson
Blaðamaður
Símar 456 4560,
866 7604 smari@bb.is


 


Jón Hallfreð Engilbertsson
Setning - umbrot
Sími 456 4560
honnun@bb.is

Útgefandi

Útgefandi
Athafnagleði ehf
Mánagötu 2, 400 Ísafjörður
Sími 456 4560 - Fax 456 4564
Kt. 690715-0740 – netfang: bryndis@bb.is
Veffang: www.bb.is

Ritstjóri og ábyrðarmaður
vikublaðsins Bæjarins besta

Bryndís Sigurðardóttir
Ritstjóri og ábyrgðarmaður bb.is
Bryndís Sigurðardóttir

Áskriftarform

Almennar upplýsingar

(Án striks, t.d: 0101010109)
Greiðslumáti:

Ef greitt með korti:

Sigurjón J. Sigurðsson og Halldór Sveinbjörnsson stofnendur Bæjarins besta með fyrsta prufueintakið úr offset fjölritara blaðsins. Myndin er tekin í október 1984.

Saga blaðsins

Í dag hefur þú, lesandi góður, fyrsta eintakið af Bæjarins besta í höndunum. Það hefur lengi blundað í undirrituðum að gefa út eitthvert blað í líkingu við þetta en aldrei orðið að veruleika fyrr en nú. Tilgangur Bæjarins besta er, eins og nafnið bendir til, að koma á framfæri því sem um er að vera í bæjarfélagi okkar í hvert skipti. Ætlun mín er að reyna að hafa blað þetta sem fjölbreyttast og er það opið öllum þeim sem vilja leggja því lið með efni, svo og eru allar ábendingar um efnisval vel þegnar. Með von um góðar viðtökur óska ég ykkur alls hins besta. Sigurjón. (Bæjarins besta, 1. tbl. 1. árg. 14. nóvember 1984).

Með þessum orðum hófst saga Bæjarins besta eða BB eins og það er jafnan nefnt. Fyrstu tölublöðin voru vélrituð og allt stærra letur límt inn með þrykkistöfum. Þegar umbroti var lokið var blaðið síðan sent til Reykjavíkur þar sem það var filmuunnið og sett á prentplötur. Fyrsta eintakið rann út úr prentvélinni árla morguns 14. nóvember 1984. Það var ósköp smátt, átta síður í A5-broti, enda aðallega hugsað sem auglýsingablað. Eftir að "pikkinu" á ritvélinni lauk var farið að tölvusetja blaðið. Þann 1. júní 1985 var stofnað fyrirtæki um reksturinn og úr varð H-prent, sem enn þann dag í dag gefur blaðið út.

Við stofnun H-prents var farið út í fjárfestingar í tækjabúnaði og varð sú ákvörðun þess valdandi að ekki varð til baka snúið. Blaðið breytti um útlit og eftir að eitt ár var liðið frá útkomu fyrsta tölublaðsins var tekin ákvörðun um að stækka brot blaðsins og gera það að alvöru fréttablaði fyrir Ísafjörð og nágrenni. Fyrstu fimm árin tók blaðið miklum breytingum, bæði hvað varðar útlit og innihald. Í júní 1989 var brot blaðsins enn stækkað og enn aftur 10. apríl 1991 en þá var það stækkað í það sem það er í dag.

Fyrsti blaðamaður Bæjarins besta, Snorri Grímsson, við fréttaskrif árið 1986. Fjær er ritstjórinn Sigurjón J. Sigurðsson við umbrot.
Fram til haustsins 1992 var blaðinu dreift ókeypis. Þá var svo komið að auglýsingatekjurnar stóðu ekki undir rekstrinum. Því var ekki nema um tvennt að ræða, að hætta útgáfu eða selja afurðina. Síðari kosturinn var valinn og það er því lesendum blaðsins að þakka að það er enn við lýði. Fjölmörg héraðsfréttablöð hafa lognast út af á undanförnum misserum, enda hefur hvert áfallið á hendur öðru hellst yfir blaðaútgefendur í landinu. Sýnu verst var sú ákvörðun stjórnvalda að setja virðisaukaskatt á alla blaða- og tímaritaútgáfu. Sú ákvörðun stjórnvalda varð mörgum útgefandanum að falli. BB er þó enn við lýði og er nú í hópi elstu héraðsfréttablaða landsins. Útgáfa BB á Netinu hófst fyrir rúmum tveimur árum og stóð fram í maí á síðasta ári, er útgáfunni var hætt vegna tæknilegra örðugleika.

BB var fyrsta blað landsins sem notendur Netsins gátu séð í heild sinni, þ.e. eins og pappírsútgáfan leit út. Á meðan á útgáfu BB á Netinu stóð var heimasíða þess mest sótta heimasíða Snerpu ehf. sem þjónað hefur netútgáfunni frá upphafi. Héraðsfréttablað eins og Bæjarins besta þjónar ekki síðra hlutverki en dagblað og öflug héraðsfréttablöð eru lesin staf fyrir staf.

Lestur á dagblöðum er hins vegar æði misjafn og því erum við útgefendur héraðsfréttablaða vissir í okkar sök þegar við segjum að þau séu besti auglýsingamiðillinn á hverju svæði fyrir sig. En héraðsfréttablöð eru ekki bara auglýsingablöð, þau færa fólki fréttir af atburðum líðandi stundar sem og atburðum sem "stóru blöðin" segja aldrei frá. Það er tilgangur þeirra og lifibrauð. Nú hefur netútgáfa blaðsins verið tekin í notkun að nýju eins og sést hér á bb.is.

Það er von útgefenda að útfærslurnar tvær, BB á pappír og BB á Netinu, verði lesendum bæði til fróðleiks og ánægju. Við sem störfum við blaðið erum í góðu formi og lítum björtum augum til nýrrar aldar. Við viljum vinna enn betur að því að gera blaðið fallegra og áhugaverðara sem og að auka tengslin við lesendur. Það er ekki einungis hagur okkar á blaðinu, heldur allra á útgáfusvæði þess. (Fréttavefur Bæjarins besta, opnunardagur, 4. janúar 2000).

Enn skal aukið við þennan formála. Frá því að kaflinn hér á undan var ritaður í byrjun ársins 2000 hefur tíminn liðið hratt. Viðgangur fréttavefjar Bæjarins besta á tveimur árum hefur verið miklu meiri en nokkurn sem að honum standa hefði grunað. Aðsóknin hefur verið langt umfram björtustu vonir og minnir enn á þá þekktu staðreynd, að flestir Vestfirðingar eru brottfluttir Vestfirðingar. Vefurinn er lesinn reglulega í tugum þjóðlanda um allan heim, auk þess sem hann virðist vera skyldulesning þúsunda netverja hérlendis á hverjum degi.

Halldór Sveinbjörnsson, annar stofnenda blaðsins við filmuskeytingu á upphafsárum þess.
Sá vefur sem þjónaði svo vel í tvö ár var þegar í upphafi mjög af vanefnum ger hvað tæknilegu hliðina snerti. Ekki hefur það skánað með tímanum, þegar það sem er nýtt í dag er orðið gamalt á morgun. Þess vegna var nú um tvo kosti að velja: Að byggja nýjan vef frá grunni, tæknilega miklu betri og fjölbreyttari og þjálli í notkun, bæði fyrir lesendur og vefstjóra, með öllum þeim kostnaði og vinnu sem slíku fylgir, eða hætta.

Fyrri kosturinn var tekinn. Sá kostur var tekinn að vandlega athuguðu máli og reynt að gæta þess að rasa ekki um ráð fram. Markmiðin eru fremur hófsöm eins og jafnan áður hjá Bæjarins besta. Farsælla virðist að hóflegar vonir rætist vel en að loftkastalar hrynji. Orðin sem rituð voru seint í nóvember árið 1984 eru hins vegar enn í fullu gildi. Ætlunin er að blað þetta, sem nú birtist enn með nýju sniði, verði "sem fjölbreyttast og er það opið öllum þeim sem vilja leggja því lið með efni, svo og eru allar ábendingar um efnisval vel þegnar". (12. janúar 2002).

Það verður að segjast eins og er, að þegar ráðist var í gerð BB-vefjarins á sínum tíma fór lítið fyrir forsjánni í samanburði við kappið og óbilandi bjartsýni um að þarna væri verið að stíga framfaraskref. Ef til vill lágu rætur bjartsýninnar allt aftur til ársins 1984, þegar fyrsta litla BB-blaðið kom úr fjölritaranum og hefur allar götur síðan dafnað ár frá ári og sífellt lagað sig að breyttum tímum og tækni; blaðið, sem í nær 20 ár hefur notið velvildar og stuðnings góðra viðskiptavina og tryggs lesendahóps.

Allt frá því að BB-vefurinn var opnaður 4. janúar 2000 hefur hann notið mikilla vinsælda og heimsóknum fjölgað stöðugt. Gestabókin ber líka með sér að lesendur eru svo að segja frá öllum heimshornum. Veigamikil breyting var gerð á vefnum 12. janúar 2002 og nú 28. febrúar 2004 orðuðum við það svo, að þriðja kynslóð BB-vefjarins væri komin til skjalanna.

Af viðbrögðum þeirra að merkja sem litið hafa inn á vefinn eftir breytinguna kvíðum við ekki framtíðinni. bb.is mun hér eftir sem hingað til hafa það að markmiði að halda á lofti nafni Vestfjarða og öllu því sem þar er í boði, auka hróður fjórðungsins og fólksins sem þar býr. (Úr leiðara í Bæjarins besta 3. mars 2004).


Byggir á LiSA vefumsjónarkerfi frá Eskli