Grein

Ingunn Ósk Sturludóttir
Ingunn Ósk Sturludóttir

Ingunn Ósk Sturludóttir | 14.11.2016 | 09:28Tónlistarskóli eða ekki tónlistarskóli? Þar er efinn, eða hvað?


Þegar ég settist niður á skrifstofunni minni í morgun og var að fara yfir tónlistarskólastarfið þetta haust og huga að næstu mánuðum varð mér þungt fyrir brjósti. Ekki vegna þess að starfið sé í uppnámi, þvert á móti, það er í miklum blóma þrátt fyrir allt. Mér er þungt fyrir brjósti því að TÓNLISTARSKÓLAkennarar á Íslandi hafa nú verið samningslausir í 376 daga. Viðræður milli samninganefnda SNS og FT virðast í algerri pattstöðu og langlundargeð stjórnenda og tónlistarkennara í TÓNLISTARSKÓLUM landsins senn á þrotum.

Það er margt sem fer fram í TÓNLISTARSKÓLANUM, eigum við að athuga það svolítið betur?
TÓNLISTARSKÓLAkennari fer í leikskólann og sér um söngstund í efstu deild leikskólanna 52 börn syngja saman og fara í TÓNLISTARleiki. Kennari fer yfir í grunnskólann og kennir 5.-7. bekk á TÓNLISTARforrit og krakkarnir búa til eigin tónlist. Nemendur 1.-4. bekkjar koma í TÓNLISTARSKÓLANN í forskóla, Tónsmiðju og kór, þau ætla líka ásamt lúðrasveitinni að gleðja bæjarbúa þegar kveikt verður á jólatrénu.

Þrjár lúðrasveitir eru við TÓNLISTARSKÓLANN og nú er yngsta sveitin að undirbúa ferð suður til að spila á lúðrasveitarmaraþoni í Hörpu. Svo má ekki gleyma því að lúðrasveitin spilar alltaf í friðargöngu á Þorláksmessu og náttúrulega 1. maí, já og á 17. júní svo eitthvað sé nefnt. Fiðlunemendur TÓNLISTARSKÓLANS eru nýkomnir úr velheppnaðri ferð til Póllands.

TÓNLISTARSKÓLINN er með Opið hús á laugardegi og taka kennarar á móti um 200 gestum, þar geta allir prófað hin ýmsu hljóðfæri, búið til tónlist við teiknimynd, prófað að spila í hljómsveit. Örtónleikar nemenda í hverri stofu, samsöngur á sal og margt fleira ber við, sérstaklega vel heppnað og gestir fara heim brosandi kátir eftir skemmtilega heimsókn í TÓNLISTARSKÓLANN.

Tæplega 180 nemendur sækja einkatíma á hljóðfæri sín vikulega. Þau eru á aldrinum 6 til 20 ára, byrjendur og nemendur sem eru langt komnir í framhaldsstigi því í TÓNLISTARSKÓLANUM er kennt þvert á skólastig. Fræðakennsla er kennd í nokkrum hópum og vikulega er strengjasveit, rytmiskt samspil, gítarsamspil, slagverkshópar og samsöngur svo eitthvað sé nefnt.

Nemendur TÓNLISTARSKÓLANS fara reglulega og spila á hjúkrunarheimilinu, sjúkrahúsinu og fyrir eldri borgara. Þeir spila líka í fjölskyldumessum, koma fram á aðventukvöldum og á margskonar uppákomum í sveitarfélaginu. TÓNLISTARSKÓLAkennarar fylgja þeim á slíkar uppákomur, sem yfirleitt fara fram á kvöldin og um helgar. Tónleikahald í TÓNLISTARSKÓLANUM er yfirgripsmikið og koma allir nemendur fram á tónleikum þrisvar á ári.

Í TÓNLISTARSKÓLANUM er unnið eftir aðalnámskrá TÓNLISTARSKÓLANNA sem gefin er út af Mennta- og menningarmálaráðurneytinu en kennslan er sveigjanleg, síbreytileg og gera kennarar námsáætlanir fyrir hvern og einn nemanda því þarfir og geta eru mismunandi. TÓNLISTARSKÓLAkennari í fullu starfi við gerir því 20 námsáætlanir og er í sambandi við foreldra hvers og eins nemanda.

Ofangreint er gróf lýsing á starfi kennara við Tónlistarskóla Ísafjarðar En en svona starfa kennarar við TÓNLISTARSKÓLA í sveitarfélögum um allt land. TÓNLISTARSKÓLINN er vagga menningarstarfs bæjar- og sveitarfélaga og yfirleitt skrautfjöður þeirra og stolt. En hver er drifkraftur þess mikla starfs sem fram fer í TÓNLISTARSKÓLUM landsins? Svarið hlýtur að vera TÓNLISTARSKÓLAKENNARAR. Án þeirra færi lítið fyrir blómlegu tónlistarnámi, tónleikahaldi bæði í TÓNLISTARSKÓLANUM og á breiðum menningarvettvangi bæjarlífsins.

Í ljósi alls þessa sækja á mig nokkrar spurningar nú þegar TÓNLISTARSKÓLAkennarar hafa verið samningslausir í rúmlega ár. Spurningar sem ég vil beina til fulltrúa sveitarfélaga um allt land:
Hversu mikilvægt er starf TÓNLISTARSKÓLA í sveitarfélögum?

Er það virkilega svo að sveitarfélög sjái fyrir sér að reka ekki TÓNLISTARSKÓLA? Það gæti orðið svo í náinni framtíð að þau hreinlega gætu það ekki lengur því nýliðun í stéttinni er lítil sem engin og þegar farið að bera á atgervisflótta vegna slakra kjara og þeirri lítilsvirðingu sem störfum þeirra er sýnd þegar þeir opna launaumslögin sín um hver mánaðarmót.

TÓNLISTARSKÓLAKENNARAR eru að jafnaði með 10-15% lægri laun en kennarar í öðrum skólagerðum. Samræmist það stefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga um að greiða beri sömu laun fyrir sambærilega vinnu? Ja ég bara spyr?

Ísafjörður er gjarnan nefndur Tónlistarbærinn og hefur Tónlistarskóli Ísafjarðar jafnan notið velvilja bæjarbúa og bæjarstjórnar. Samfélagið hér vestra gerir sér grein fyrir mikilvægi skólans ekki síst vegna þess að hann er meðal þess sem gerir bæinn fýsilegan kost til búsetu í huga fólks. Ég vil því skora á bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar og reyndar stjórnir sveitafélaga um allt land að að þrýsta á SNS, Samninganefnd sveitarfélaga, til að höggva nú þegar á þann hnút sem myndast hefur í samningaviðræðum og semja við FT, Félag stjórnenda og kennara í tónlistarskólum, um sambærileg laun við laun kennara allra skólagerða innan KÍ.

Ingunn Ósk Sturludóttir

Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi