Grein

Mynd úr safni
Mynd úr safni

Nokkrir | 20.01.2016 | 11:22Opið bréf vegna baðfatasturlunar

Háæruverðug bæjaryfirvöld Ísafjarðar og nágrannabyggða, fjallanna, fossanna, giljanna, fólksins og skepnanna, takið nú eftir og hlýðið vel.

Líkt og það er mælikvarði á mennsku einstaklinga hversu mikinn áhuga þeir sýna öðrum, frekar en hvort þeim sé fært að rýna djúpt í eigin nafla, er það mælikvarði á menningarstig þjóða hversu mikla rækt og virðingu þær leggja við menningu annarra þjóða. Til að vera mikill þýskur matreiðslumeistari er ekki nóg að leggja alúð í súrkálið og snitselið, það þarf líka að leggja alúð í falafelið og paelluna; til að vera mikill ástralskur kappi dugar búmerangið ekki til, það þarf líka að ná tökum á jóga og Charles Atlas; og ætli maður að verða mikilfenglegur íranskur strengjaleikari er ekki nóg að geta spilað radif á setar, maður þarf líka að læra að spila sónötur á selló og xẩm á đàn bầu. Og það sem meira er: sennilega verður setarleikur manns betri fyrir vikið.

Helgidómur sánunnar

Nú ber svo við að síðustu áratugi hefur verið rekið finnskt gufubað – svonefnd sána – í hinni glæsilegu Sundhöll Ísafjarðar, sem teiknuð var af fyrrum húsameistara ríkisins, Guðjóni Samúelssyni (og á vel að merkja 70 ára afmæli nú á allra næstu dögum, vígð 1. febrúar 1946). Sánabað þetta er í þeim stærri af tveimur skiptiklefum, sem til að gæta jöfnuðar milli kynja tilheyrir ýmist körlum eða konum – jöfnuðurinn er að vísu ekki meiri en annars staðar í þjóðfélaginu, svo karlmenn njóta hans fjóra daga í viku en kvenfólkið þrjá. Látum það liggja á milli hluta í bili. Í þessum öðla klefa mæta Ísfirðingar, nærsveitamenn og gestir bæjarfélagsins því sem á finnsku er kallað „löyly“ – hinum alltumlykjandi og dýrðlega hita sem rís upp úr heitu grjótinu þegar skvett er á það vatni.

Íslenska orðið sána er samhljóma hinu finnska „sauna“ – sem líkt og „geysir“ íslenskunnar hefur gert víðreist um tungur heims. Sánaböð eru órjúfanlegur þáttur í finnskri menningu, enda hafa þau fylgt þjóðinni frá örófi alda. Samkvæmt nákvæmustu talningum má nútildags finna þar í landi um einn baðklefa á hverja 3-4 íbúa. Sánan þykir þá og vera helgur staður, þar fæddu konur börn sín lengi og gera sumar enn – við hreinlæti og hlýju – þar situr maður við, ræðir eilífðarmálin og íhugar lífið, allt það sem úrskeiðis hefur farið og hitt sem ber að þakka, og í sánuna sækir fólk til að minnast látinna ættingja sinna. Hafa margir fyrir satt að í sánum fái fólk jafnvel læknast af kaunum sínum og illmeinum – eða einsog segir í máltækinu: „Sauna on köyhän apteekki“ – sánan er apótek fátæka mannsins.

Sánunni ber sumsé að sýna virðingu og ætti kannski ekki að þurfa að taka fram. Hún er ekki staður undir fíflalæti eða flimtingar og í sánunni gilda ákveðnar reglur – því einsog segir í öðru frægu máltæki: „Saunassa ollaan kuin kirkossa“ – í sánu hagar maður sér sem í kirkju væri. Á þessu er fyrst og fremst ein mikilvæg undantekning: helgidómi kirkjunnar mætir maður kannski spariklæddur, en löylynni mætir maður einsog guð skapaði mann, berrassaður á lillanum eða pjöllunni eftir atvikum. Í sánunni er skömmin útlæg, þar fyrirverður sig enginn frekar en í Aldingarðinum, ekki feitir, mjóir, loðnir, hárlausir, fótalausir, bólugrafnir, sveittir, þurrir eða annars lags. Því líkt og garðurinn er sánan griðastaður og þar eru allir menn helgir.

Hinn nístandi ótti við annarra manna rassa

Lengi vel hékk utan á áðurnefndum sánaklefa eitthvert það allra fáránlegasta skilti sem undirrituð hafa um ævina séð, þar sem fram kom að sánabaðið væri ekki ætlað einstaklingum yngri en tólf ára! Í þeim löndum þar sem sánamenningin ristir dýpst er sánan staður fyrir fjölskylduna – og líkt og áður segir, þá eru margir aldrei yngri en þegar þeir koma fyrst í sánuna: beint úr móðurkviði. Það er fyrst og fremst heimurinn utan við klefadyrnar sem er hættulegur. Í sánunni erum við örugg.

Þegar þessi móðgun við almenna skynsemi og hina mikilfenglegu menningu og sögu sánabaðsins var loks fjarlægð tók ekki mikið betra við. Nú hangir á hurðinni annað skilti þar sem þess er krafist af baðgestum að þeir klæðist SUNDFÖTUM – ellegar vefji sig handklæði – þegar þeir sitja í sánunni. Látum liggja á milli hluta hversu sturlað samband manns þarf að vera við eigin nekt og nekt samborgara sinna til þess að hann láti bjóða sér sánur í fullum herklæðum; og látum einnig liggja á milli hluta að í næsta baðklefa við sánuna – hjá hinu svonefnda „sturtubaði“ – hangir skilti þar sem fólki er skilmerkilega og skiljanlega bent á að klæða sig ÚR sundfötunum; og látum meira að segja liggja á milli hluta hversu gróf móðgun þetta er við hið menningarlega og félagslega rými sánunnar – sem er sambærileg við að Finnum yrði skipað að sprauta tómatsósu út á þorrabakkann – og nefnum þetta eitt:

Samkvæmt öllum rannsóknum þar að lútandi er gríðarmikill sóðaskapur fylgjandi skítugum, klórböðuðum sundfötum – sem sjúga í sig bakteríur, safna óhreinindum og fóstra vel, þar til að í hitann er komið og viðbjóðurinn uppleysist og vanhelgar löylyna, vit manna, líkama þeirra og sálir, svo þeir fara krankir og hugsjúkir aftur út í veröldina, en ekki tápgóðir og upplitsdjarfir einsog stefnt var til.

Víðast hvar í hinum siðmenntaða heimi er því lagt blátt bann við því að sundföt séu dregin með inn í helgidóminn. Áhöld eru síðan um það hvort hreinlegra sé að sitja á handklæði – og þá tandurhreinu slíku – eða einfaldlega á rassinum, sem er ekki nærri jafn hættulegur og margir halda, sérstaklega ekki þegar maður kemur beint úr áðurnefndu sturtubaði. Ekki verður tekin afstaða í þeirri deilu hér, eða farið nánar út í þá sálma, heldur látið duga að benda þeim á valmöguleikann sem þola ómögulega tilhugsunina um að skilja eftir sig rassafar á bekknum.

Áskorun

Skorum við undirrituð því á bæjaryfirvöld – í nafni menningar, hreinlætis, samfélags og helgidóms – að sjá til þess að téð skilti verði fjarlægt hið fyrsta og þess í stað komi annað þar sem baðgestir eru beðnir allra innvirðulegast um að skilja klæðnað sinn eftir frammi, áður en gengið er inn í hitann (þar sem þeir geti hugsanlega setið á hreinu handklæði, kjósi þeir það). Á þann hátt verður betur staðinn vörður um hinn mikilfenglega og dulmagnaða kraft löylynnar, og sánunni ekki spillt, því líkt og segir í máltækinu: „Jos ei viina, terva ja sauna auta, niin tauti on kuolemaksi“. Ef það læknast hvorki með víni, tjöru né sánu, þá er það áreiðanlega banvænt.

Eiríkur Örn Norðdahl
Nadja Widell (née Veikkolainen)
Markku Nurmi
Hálfdán Bjarki Hálfdánsson
Tapio Koivukari
Marjo Lahti
Matthildur Helgadóttir Jónudóttir
Henna-Riikka Nurmi
Jarkku Lahti
Ilkka Nurmi

Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi