Grein

Fjölnir Ásbjörnsson og Heiðrún Tryggvadóttir.
Fjölnir Ásbjörnsson og Heiðrún Tryggvadóttir.

Fjölnir Ásbjörnsson / Heiðrún Tryggvadóttir | 12.11.2014 | 13:50Það er löngu komið nóg!

Það þarf ekki að fjölyrða um gildi tónlistar, hún er umlykjandi okkur í hinu daglega lífi. Fjöldinn allur af börnum og unglingum sem og fullorðnu fólki leggur stund á tónlistarnám sér til gleði og ánægjuauka. Í tónlistarskólum landsins starfa sérfræðingar, sérfræðingar í að kenna tónlist. Við höfum verið svo heppin í mörg ár að njóta krafta þessara sérfræðinga sem hafa kennt sonum okkar tónlist. Fyrir það erum við þakklát, en í dag erum við líka áhyggjufull. Við höfum miklar áhyggjur af hvert stefnir með tónlistarnám sona okkar sem í dag hefur legið niðri í þrjár vikur.

Þegar verkfallsboðun tónlistarkennara var samþykkt á haustdögum áttum við satt að segja aldrei von á að til þess kæmi. Horfðum við þá til annarra kennarasamninga sem gerðir hafa verið að undanförnu og töldum borðleggjandi að samið yrði við tónlistarkennara á sömu nótum. Síðan eru liðnar heilar þrjár vikur. Í þrjár vikur hafa tónlistarskólanemendur ekki fengið kennslu. Í þrjár vikur hafa tónlistarkennarar ekki kennt.

Á hverjum degi spyr litli tónlistarskólanemandinn okkar vongóður hvort verkfallið sé búið og hvort hann komist aftur í tónlistarskólann. Í þrjár vikur höfum við þurft að segja honum að svo sé ekki, það sé ennþá verkfall. Við erum búin að fá nóg, nóg af virðingarleysi við tónlistarkennara og nóg af virðingarleysi við menntun barna okkar.

Kæru sveitarstjórnir þessa lands. Semjið strax við tónlistarkennara og leyfið þannig tónlistarnámi um landið að blómstra áfram.

Heiðrún Tryggvadóttir og Fjölnir Ásbjörnsson.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi