Grein

Jón Páll Hreinsson.
Jón Páll Hreinsson.

Jón Páll Hreinsson | 11.11.2014 | 13:36Fallegasti fugl í heimi

Árið 1935 var merkisár í sögunni fyrir margra hluta sakir. Það sem fáir vita kannski er að það ár sendi breska heimsveldið sveit landkönnuða til Nýju Gíneu til að leita að hentugum svæðum til að rækta kaffi, en þessi magnaði drykkur var nú hratt að ná miklum vinsældum á meginlandi Evrópu.

Það sem landkönnuðirnir fundu hinsvegar var mun merkilegra og óvæntara. Uppgötvunin voru fuglar sem þeir kölluðu paradísarfugla. Þetta voru fallegustu fuglar sem þeir höfðu nokkurn tímann augum litið, eins og dagbækur Bretanna bera vitni um.

Ein fuglategundin var í sérstöku uppáhaldi hjá landkönnuðunum. Hún var með eindæmum litskrúðug og því til viðbótar hafði hún söngrödd sem ekki var hægt að líkja við neitt annað á þessari jörðu. Þetta var án efa fallegasti fugl sem lifað hefur í þessum heimi.

Orðið „lifað“ er skrifað í þátíð og það af ásetningi. Það var nefnilega þannig að landkönnuðirnir ræktu sitt hlutverk samviskusamlega og fundu heppilegt land til kaffiræktunnar. Nýjum kaffiplöntum var ræktað þar sem skógurinn var áður og með árunum stækkuðu kaffiekrurnar hægt og rólega á meðan heimkynni paradísarfuglanna minnkaði.

Þetta gerðist ekki hratt, heldur fór eitt rjóður í einu undir fleiri kaffiplöntur. Fólkið tók ekki eftir að fuglunum tók að fækka, þeir fuglar sem fyrir voru urðu eldri og erfiðara var fyrir þá að lifa og koma upp nýjum stofni. Smám saman hvarf söngurinn og að lokum fyrir einskonar tilviljun tóku menn eftir að söngur fallegasta fugls í heimi heyrðist ekki lengur.

En hvað kemur okkur þetta við? Hvað getum við lært af brotthvarfi fallegasta fugls í heimi?

Við stöndum einmitt í þessum sömu sporum. Við eigum fagran fugl. Þann fallegasta í heimi. Við búum nefnilega í tónlistarbænum Ísafirði. Orðspor sem byggir á hefð, reynslu og þekkingu, sem hefur tekið meira en sex áratugi að búa til.

Verkfall tónlistarkennara sem nú stendur yfir mun ekki eitt og sér drepa tónlist, en smá saman mun viðhorf gagnvart tónlist, gagnvart tónlistarkennurum, þrengja að tónlistarbænum Ísafirði. Ef ekki er haldið vel utanum tónlistarbæinn, þá mun draga af honum eins og fallegasta fugli í heimi og áður en við áttum okkur á verður söngurinn horfinn.

Tónlistarkennarar eru ekki öfundsverðir af því að vera í verkfalli. Þeir fá stöðugt að heyra um aðrar stéttir sem eru hluti af grunnþjónustu og eru líka illa staddar. Aldrei er minnst á tónlist sem hluti af grunnþjónustu. Enda er hún það líklega ekki. Tónlist er ekki lífsnauðsynleg. En alveg eins og fallegasti fugl í heimi var ekki nauðsynlegur hluti af fæðukeðju mannsins, þá er heimurinn samt fátækari án hans. Heimurinn er óhugsandi án tónlistar og bærinn okkar Ísafjarðarbær verður fátækari bær án tónlistar.

Tónlistarkennarar og nemendur þeirra þurfa á rödd okkar að halda. Sendið tölvupósta, skrifið færslur á fésbókina, deilið fréttum, talið við fólk. Komið því til skila að tónlistarbærinn Ísafjörður vill ekki verkfall lengur. Öllum verkföllum lýkur á endanum en þetta verkfall er orðið allt of langt!


Jón Páll Hreinsson, formaður Tónlistarfélags Ísafjarðar.

P.s. Fallegasti fugl í heimi er myndlíking. Hann var aldrei til og paradísarfuglarnir á Nýju Gíneu fljúga enn um skógana.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi