Grein

Nótan 2013, en Tónlistarskóli Ísafjarðar vann til tveggja verðlauna.
Nótan 2013, en Tónlistarskóli Ísafjarðar vann til tveggja verðlauna.

Kristín Harpa Jónsdóttir / Pétur Ernir Svavarsson | 29.10.2014 | 09:47Verkfall tónlistarkennara

Martröð okkar tónlistarnemenda er orðin að veruleika. Verkfall er skollið á og ekki sér fyrir endann á þeirri deilu. Tónlistarskólinn hefur verið okkur annað heimili frá því að við hófum tónlistarnám og því hefur nú verið lokað.

Tónlistarskóli er staður þar sem fólk getur látið drauma rætast. Það að læra að syngja, spila á hljóðfæri og koma fram fyrir framan fullan sal af fólki kennir okkur svo miklu meira en það að hitta á réttar nótur. Það kennir okkur að takast á við tilfinningar og vandamál, það kennir okkur tjáningu með bæði tónlist og tungu og öll skemmtunin sem fylgir því að læra á hljóðfæri bætir þetta skrítna fyrirbæri sem tónlistin er enn meira.

Margir stunda nám í fleiri en einni grein sem metið er til eininga við Menntaskólann á Ísafirði og getur það sett námsframvinduna alla í uppnám. Einnig er mikið samstarf nýhafið við Grunnskólann á Ísafirði þar sem yngri nemendur fá að spreyta sig á hljóðfærin og annað. En þetta samstarf liggur í augnablikinu niðri og er þessi skólastund í hættu hjá yngri krökkunum þar sem engir tónlistarkennarar eru tiltækir og erfitt er fyrir grunnskólann að manna þennan kennaramissi.

Tónlistarbærinn Ísafjörður hefur státað af mörgum mjög góðum tónlistarmönnum, sem er ekki síst tónlistarskólunum og miklum metnaði starfsfólks þeirra að þakka. Og nú er okkar framtíð í hættu því að hver dagur, hver mínúta sem við höfum ekki leiðsögn kennara okkar skiptir máli. Við erum að missa af mikilvægum undirbúningi fyrir próf, tónleika og framhaldsnám og þar af leiðandi framtíð okkar.

Það er því mjög dapurt að horfa upp á lokaða skóla vegna kjarabaráttu tónlistarkennara. Vonum við svo innilega að úr rætist sem allra fyrst svo að ísfirsk ungmenni geti fengið að þroska með sér tónlistaráhuga og hæfileika hér eftir sem hingað til. Það er einnig mjög sorglegt að sjá að það þurfi að hætta við allskonar uppákomur eins og tónleika lúðrasveita tónlistarskólans á veturnóttum, en bak við þessa tónleika og annað athæfi er mjög mikil vinna og undirbúningur sem fór í vaskinn vegna verkfallsins.

Það er ekki nóg að dásama tónlist á hátíðis og tyllidögum heldur þurfa sveitafélögin að sýna það og sanna í verki að það kunni að meta hana og greiða tónlistarkennurum mannsæmandi laun í takt við það. Menntun er aldrei af manni tekin. Mennt er máttur.

Kristín Harpa Jónsdóttir og Pétur Ernir Svavarsson,
nemendur við Tónlistarskóla Ísafjarðar.Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi