Grein án commenta

Ingunn Ósk Sturludóttir.
Ingunn Ósk Sturludóttir.

bb.is | 12.11.2014 | 14:51Dapurt að geta ekki kennt áhugasömum nemendum

Ingunn Ósk Sturludóttir, skólastjóri Tónlistarskóla Ísafjarðar, óttast brottfall nemenda og að önnin verði ónýt vegna verkfallsins. „Ef þetta leysist ekki í þessari viku er ég hrædd um að önnin verði ónýt. Við erum hrædd um að nemendur hætti og það verði mikið brottfall,“ segir Ingunn. Hún segir að á hverjum degi komi nemendur í Tónlistarskólann og spyrji hvort verkfallið fari ekki að verða búið. „Ég er mjög glöð að sjá að nemendur eru áhugasamir og vilja koma aftur í skólann en á sama tíma er ég döpur yfir því að við getum ekki kennt þeim,“ segir hún. Megin krafa tónlistarkennara er að laun þeirra verði sambærileg á við aðrar kennarastéttir og segir Ingunn að tónlistarkennarar hafi dregist verulega aftur úr.

Ríkissáttasemjari sleit samningafundi tónlistarkennara og samningarnefndar sveitarfélaganna á tíunda tímanum í gær og verkfallið hefur staðið yfir í 22 daga. „Það virðist allt vera stál í stál og það virðist vera að Reykjavíkurborg standi í vegi fyrir samningum,“ segir Ingunn og vísar í grein sem Hólmfríður Sigurðardóttir skrifaði í Morgunblaðið á laugardag.

Tónlistarkennarar í Ísafjarðarbæ sendu bæjarfulltrúum í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar áskorun í síðustu viku þar sem þeir voru hvattir til að leita allra leiða til að leysa deiluna. „Það sem bæjarfulltrúar geta gert er að þrýsta á sína menn í samninganefndinni því það er mikið í húfi fyrir Ísafjarðarbæ. Í Tónlistarskóla Ísafjarðar eru t.d. 16 nemendur á framhaldsstigi sem er óvenjulegt fyrir skóla af þessari stærðargráðu á landsbyggðinni og sýnir hvað við höfum frábæra kennara, bæði erlenda og íslenska og það væri mikil synd fyrir samfélagið ef los kemst á kennaraliðið vegna verkfalls og launadeilu,“ segir Ingunn.

Ásgeir Trausti, Guðrún Eva Mínervudóttir, Jakob Frímann Magnússon, Brynhildur Guðjónsdóttir og Ágúst Einarsson hafa stigið fram til stuðnings tónlistarskólakennurum í myndskeiði sem birt hefur verið á vefnum.

smari@bb.is


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi