Grein án commenta

Tónlistarkennarar í Stjórnsýsluhúsinu í gær.
Tónlistarkennarar í Stjórnsýsluhúsinu í gær.

bb.is | 07.11.2014 | 09:23Ólíðandi að tónlistarkennarar séu neyddir í verkfall

 

Tónlistarkennarar í Ísafjarðarbæ skora á bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar að beita sér fyrir því að samið verði sem fyrst við Félag tónlistarskólakennara. Örnu Láru Jónsdóttur, oddvita Í-listans, var afhent áskorun frá öllum tónlistarkennurunum í Ísafjarðarbæ í Stjórnsýsluhúsinu í gær. Í ályktuninni segir að það sé ólíðandi að ein stétt innan Kennarasambands Íslands sé neydd til að grípa til aðgerða til að ná fram sambærilegum kjörum og aðrar kennarastéttir innan sambandsins. „Það er mikilvægt að samningsaðilar nái sem fyrst sáttum svo að núverandi verkfall valdi sem minnstum skaða fyrir nemendur. Hið mikilvæga starf sem fram fer í tónlistarskólum landsins liggur undir og hætt við að námsframvinda nemenda og tónlistarlíf Íslendinga hljóti skaða af,“ segir þar.

„Stöndum vörð um tónlistarskólakerfið á Íslandi, skólakerfi sem hefur margsannað gildi sitt og við getum öll verið stolt af. Við trúum því að sveitarfélagið okkar vilji leita allra leiða til að starf tónlistarskólanna megi halda áfram nemendum og samfélaginu öllu til góðs,“ segir síðan í ályktun og áskorun tónlistarkennara í Ísafjarðarbæ.

Í ályktuninni er vitnað í grein tveggja nemenda við Tónlistarskóla Ísafjarðar er birtist á bb.is 29. október. Kristín Harpa Jónsdóttir og Pétur Ernir Svavarsson sögðu í greininni: „Það er ekki nóg að dásama tónlist á hátíðis- og tyllidögum heldur þurfa sveitarfélögin að sýna það og sanna í verki að þau kunni að meta hana og greiða tónlistarkennurum mannsæmandi laun í takt við það. Menntun er aldrei af manni tekin. Mennt er máttur.“
Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi