Grein án commenta

Þungamiðja fiskeldis Dýrfisks er í Dýrafirði.
Þungamiðja fiskeldis Dýrfisks er í Dýrafirði.

bb.is | 18.03.2014 | 16:54Stefna á stóraukið eldi

Fiskeldisfyrirtækið Dýrfiskur er með leyfisumsóknir í fimm fjörðum á Vestfjörðum og stefnir á stóraukna framleiðslu. Í dag er fyrirtækið með 800 tonn af regnbogasilungi í kvíum í Dýrafirði. Fyrirtækið fékk fyrir skemmstu jákvæða umsögn Umhverfisstofnunar um 4000 tonna eldi í Ísafjarðardjúpi. Arnar Freyr Jónsson hjá Dýrfiski reiknar ekki með öðru en umsóknarferlið muni ganga smurt og það taki þá allt að sex mánuði að fá starfsleyfi hjá Umhverfisstofnun og rekstrarleyfi hjá Fiskistofu. Dýrfiskur er með umsóknir um eldi á regnbogasilungi í Arnarfirði, Tálknafirði og Patreksfirði og hefur sótt um stækkun leyfis í Dýrafirði úr 2.000 tonnum í 4.000 tonn.

Í Önundarfirði er fyrirtækið með 200 tonna leyfi en ekki nema örfá tonn í sjó. Dýrfiskur rekur seiðastöð á Tálknafirði og í dag eru í henni 1,3 milljón seiða sem Arnar segir að verði sett út í sjó á þessu ári. Eftir afföll má gera ráð fyrir að milljón seiði fari í sjó.

Arnar Freyr segir að stofnanir sem koma að fiskeldi hafi ekki verið í stakk búnar til að bregðast við örum vexti í atvinnugreininni. Hann tekur sem dæmi að meira en ár sé síðan umsókn um stækkun í Dýrafirði fór af stað. „Við höfum verið að bíða eftir umhverfisrannsóknum sem Hafrannsóknastofnun gerir fyrir okkur en þær eru fyrst að fara í gang núna vegna tækjaskorts í landinu. Ég er ekki að setja út á Hafrannsóknastofnun því ég veit að stofnunin er fjársvelt.“

Dýrfiskur hefur alfarið einbeitt sér að eldi regnbogasilungs og ekki farið út í laxeldi. „Í Dýrafirði erum við leyfi fyrir lax og silung en að svo stöddu sjáum við ekki fram á að fara út í laxeldi. En markaðsaðstæður eru fljótar að breytast og því gott að vera með leyfir fyrir báðum tegundum,“ segir Arnar Freyr. Allur regnbogasilungurinn er unninn hjá Arctic Odda á Flateyri. Langmest er af fiskinum er fryst, bæði fullunnin flök og nýlega hófst sala á frystum, hausuðum silungi til Japans. „Það komu japanskir kaupendur til okkar í haust og þeim leist vel á vinnsluna og afurðirnar og í kjölfarið fórum við að senda til þeirra.“

Við fiskeldi Dýrfisks starfa 12 manns og í vinnslunni á Flateyri eru á milli 40-50 manns.

smari@bb.is


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi