Grein án commenta

Frá opnun sýningarinnar.
Frá opnun sýningarinnar.
Á sýningunni er hægt að skoða texta við nokkur lög Sigfúsar, nótur, lesmál, úrklippur og ljósmyndir og myndir af málverkum eftir hann.
Á sýningunni er hægt að skoða texta við nokkur lög Sigfúsar, nótur, lesmál, úrklippur og ljósmyndir og myndir af málverkum eftir hann.

bb.is | 24.10.2011 | 13:48Lifandi sýning um tónskáld

Sýning um tónskáldið Sigfús Halldórsson var opnuð í Tónlistarskóla Ísafjarðar á laugardag í samvinnu við Tónlistarsafn Íslands. „Þetta er fyrsta skref okkar til að byggja upp samstarf við Tónlistarskóla Ísafjarðar,“ segir Bjarki Sveinbjörnsson forstöðumaður Tónlistarsafnsins. „Tónlistarsafn Íslands í Kópavogi, sem er svo að segja ný stofnun, er að reyna gefa sýningum safnsins framhaldslíf með því að koma með þær í stærri sveitarfélög landsins. Í þessu tilfelli er það sýning um Sigfús Halldórsson,“ bætir hann við.

Sýningin er aðgengileg fyrir alla, en á henni er farið yfir uppruna, námsár, líf, starf og list tónskáldsins. Sigfús naut fyrst og fremst virðingar fyrir tónlist sína og meðal frægustu laga hans eru „Dagný“, „Litla flugan“ og „Vegir liggja til allra átta,“ en hann var einnig mikilvirkur og virtur myndlistarmaður. Á sýningunni er hægt að skoða texta við nokkur lög Sigfúsar, nótur, lesmál, úrklippur og ljósmyndir og myndir af málverkum eftir hann. „Við fengum Jónas Jónasson, sem skrifaði ævisögu Sigfúsar, til að lesa bókina inn fyrir okkur og við fléttuðum inn fréttaskotum, myndböndum og tónlist. Einnig erum við með hálftíma prógram úr gömlum sjónvarpsþáttum þar sem Sigfús er að spila með ýmsum söngvurum,“ segir Bjarki.

Á opnuninni var stutt umfjöllun um tónskáldið, en síðan var öllum viðstöddum boðið að taka þátt í fjöldasöng á vinsælustu lögum Sigfúsar. Sýning var fyrst sett upp í Tónlistarsafni Íslands í Kópavogi í fyrra, en þá hefði Sigfús orðið 90 ára hefði hann lifað.

thelma@bb.is


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi